English
Hvað segja lögin?

Hatursorðræða vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar og kynvitundar er refsiverð samkvæmt 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varðar sektum eða allt að tveggja ára fangelsi. Samkvæmt ákvæðinu er refsivert að tjá opinberlega hæðni, rógburð, smánun eða ógnun sem felur í sér slíka óbeit, andúð, fyrirlitningu eða fordæmingu að telja megi hana til hatursorðræðu í garð þess sem henni er beint að. Brot á ákvæðinu má tilkynna til lögreglu.

Nái tjáning fordóma ekki því alvarleikastigi að teljast hatursorðræða samkvæmt hegningarlögunum kann að vera um áreitni að ræða en hún telst óheimil mismunun samkvæmt jafnréttislöggjöfinni. Þar er áreitni skilgreind sem hegðun sem tengist kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi. Kynbundin áreitni er óheimil samkvæmt 4. málsl. 1. mgr. 16. gr., sbr. 4. tölul. 2. gr., laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Áreitni á grundvelli hinna þáttanna að framan er óheimil á vinnumarkaði samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 7. gr., sbr. 4. tölul. 3. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, og utan vinnumarkaðar samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 7. gr., sbr. 4. tölul. 3. gr., laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar. Brot á ákvæðum jafnréttislöggjafarinnar má kæra til kærunefndar jafnréttismála.

Nánari fræðslu um áreitni og öráreitni má finna undir formerkjum Meinlaust? – herferðar Jafnréttisstofu um birtingarmyndir áreitni og öráreitni. Jafnframt má nálgast nánari fræðslu um kynjamismunun og áreitni á vefsvæði Evrópuráðsins, Sexismi: Sjáðu. Segðu. Stoppaðu.

Nái tjáning sem ber vott um fordóma ekki því alvarleikastigi að teljast áreitni eða hatursorðræða er hún að jafnaði lögleg. Hún kann hins vegar að lúta sömu lögmálum að einhverju marki og því er mikilvægt að við veljum orð okkar vel og reynum að sporna gegn neikvæðum staðalímyndum fremur en að viðhalda þeim til þess að leggja lóð okkar á vogarskálina í jafnréttisbaráttunni.

Á vettvangi Evrópuráðsins hefur verið unnið gegn hatursorðræðu á síðustu árum en árið 2022 voru gefin út tilmæli um baráttu gegn hatursorðræðu ásamt greinargerð.

Orðin okkar
Notum orðin okkar til að uppræta hatur, ekki efla það