Hatursorðræða er tjáning fordóma eða haturs í garð tiltekinna hópa, t.d. vegna kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Með fordómum er t.d. átt við fyrirfram mótaðar skoðanir sem byggja ekki endilega á raunverulegri reynslu.
Hatursorðræða getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, hópa og samfélagið allt. Þau sem verða fyrir hatursorðræðu kunna að upplifa ótta, niðurlægingu, hræðslu, kvíða, reiði, einangrun, öryggisleysi og þunglyndi. Hræðslan kann einnig að ná til aðstandenda þeirra og þess hóps eða samfélags sem samsamar sig með þeim. Hatursorðræða ýtir undir misrétti í samfélaginu og eykur hættuna á að þau sem verði vitni að henni umberi eða taki þátt í ofbeldi gegn tilteknum hópi fólks. Sé hatursorðræða viðvarandi verður til jarðvegur fordóma, sem viðheldur útskúfun, jaðarsetningu og niðurlægingu.
Í góðu og heilbrigðu lýðræðislegu samfélagi þurfa fjölbreyttar raddir að heyrast. Hins vegar getur hatursorðræða haft kælandi áhrif á samfélagsþátttöku og þátttöku í opinberri umræðu og þannig skaðað lýðræðið, þar sem fólk kann að draga sig í hlé og einangrast gegn eigin vilja. Þar með fer samfélagið á mis við mikilvæg sjónarhorn og umræðan verður einsleitari en ella.